Býrð þú í öðru norrænu landi og starfar sem listamaður eða íþróttamaður í Svíþjóð?

Þessar upplýsingar eru ætlaðar þér sem býrð í öðru norrænu landi og starfar sem listamaður eða íþróttamaður í Svíþjóð og fjalla eingöngu um skattlagningu af launum fyrir slíkt starf.

Skattlagning í Svíþjóð:

Starfir þú sem lista- eða íþróttamaður í Svíþjóð eða um borð í sænsku skipi, er almenna reglan sú að þú greiðir skatt af þeim tekjum í Svíþjóð. Ekki skiptir máli í þessu sambandi hvort launagreiðandinn er einkaaðili eða opinber aðili. Fáir þú fyrirframgreidd laun vegna starfsins frá Svíþjóð, er fyrirframgreiðslan einnig skattskyld þar.

Takmörkuð skattskylda:

Ef þú starfar sem lista- eða íþróttamaður í Svíþjóð en ert búsettur í öðru norrænu landi, berð þú takmarkaða skattskyldu í Svíþjóð vegna tímabundinna starfa þar. Þú greiðir sérstakan 15% tekjuskatt, svokallaðan A-SINK skatt af sænsku tekjunum. Sama regla gildir einnig fyrir þá sem daglega fara yfir landamæri til slíkrar vinnu í Svíþjóð og breytir engu þó ekki sé um tímabundið starf sé að ræða.

A-SINK skatturinn er endanlegur staðgreiðsluskattur og er enginn frádráttur leyfður. Greiðslur vegna fæðis, húsnæðis eða nauðsynlegra ferða í tengslum við starfið eru þó undir vissum kringumstæðum ekki skattlagðar. Skattskyldan nær bæði til einstaklinga og félagasamtaka sem fá greiðslur fyrir lista- eða íþróttastarfsemi sem fer fram í Svíþjóð eða um borð í sænsku skipi. Séu tekjur þínar greiddar af félagasamtökum sem heimilisföst eru í öðru norrænu landi, eru það samtökin en ekki þú sem eru skattskyld í Svíþjóð.

Með orðinu listamaður er hér átt við þá sem koma fram opinberlega í eigin persónu eða í hljóð- eða myndbandsupptöku með söng, tónlist, dansi, leiklist, sirkus eða öðru álíka. Hugtakið nær ekki yfir hreina kennslu eða aðra leiðbeiningar- og menntastarfsemi. Með orðinu íþróttamaður er hér átt við þá sem koma fram opinberlega í eigin persónu eða í útvarpi eða sjónvarpi, í keppni eða á sýningu. Þjálfarar og aðrir í áþekkum stöðum falla undir reglurnar um störf í einka- eða opinberri þjónustu og eru ekki skattlagðir sem íþróttamenn.

Launagreiðandi þinn innheimtir skattinn og skilar honum til skattyfirvalda. Honum ber að skila greinargerð til Skattstofunnar í Ludvika. Þú þarft ekki að skila skattframtali í Svíþjóð.

Ótakmörkuð skattskylda:

Þó þú starfir tímabundið sem lista- eða íþróttamaður í Svíþjóð með búsetu í öðru norrænu landi, getur þú borið ótakmarkaða skattskyldu í Svíþjóð ef þú dvelur þar það lengi að það sé orðin spurning um stöðuga dvöl eða þú hafir áður verið búsettur í Svíþjóð og haldir þar enn verulegum tengslum. Þú ert þá skattlagður samkvæmt almennum skattareglum og þarft að skila inn skattframtali.

Skattlagning í heimalandinu:

Launin geta einnig verið skattskyld í heimalandinu. Ef tekjurnar eru bæði skattlagðar í Svíþjóð og heimalandinu, er það heimalandið sem á að koma í veg fyrir tvísköttun með því að taka tillit til skattsins sem þú greiddir í Svíþjóð. Þú þarft því alltaf að telja erlendu tekjurnar fram á skattframtali heimalandsins.

Veldu hitt landi hr:   Danmörk | Ísland | Noregur | Finnland |