Býrð þú í Finnlandi og átt hlutabréf o.þ.h. í öðru norrænu landi?
Þessar upplýsingar eru ætlaðar þér sem býrð í Finnlandi og átt hlutabréf í félagi í öðru norrænu landi og fjalla eingöngu um skattlagningu af tekjum af þessum hlutabréfum.
Arður:
Skattlagning í greiðslulandinu:
Arður er skattlagður í því landi sem greiðir hann út og er samkvæmt norræna tvísköttunarsamningnum að hámarki 15%. Hafi hærri skattur en 15% verið dreginn af arðinum í greiðslulandinu, getur þú sótt um að fá mismuninn endurgreiddan.
Skattlagning í Finnlandi:
Arður frá öðru norrænu landi er skattskyldur í Finnlandi á sama hátt og arður frá innlendum fyrirtækjum. Skattskyldi hlutinn er reiknaður á sama hátt og skattprósentan er 30 eða 34 %. Til að koma í veg fyrir tvísköttun, er finnski skatturinn lækkaður sem nemur erlenda skattinum. Lækkunin getur þó aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemur skatti af sömu tekjum í Finnlandi.
Ef erlendu arðgreiðslurnar eru ekki þegar forskráðar í finnska skattframtalið, þarft þú sjálfur að gera grein fyrir erlendu tekjunum undir liðnum „erlendar fjármagnstekjur" (utländska kapitalinkomster). Þú gefur upp nafn og heimilisfang félagsins ásamt upplýsingum um afdregna skatta erlendis í reitnum fyrir viðbótarupplýsingar.
Hagnaður af sölu hlutabréfa:
Hagnaður af sölu erlendra hlutabréfa skattleggst í Finnlandi. Hagnaðurinn reiknast á sama hátt og ef um væri að ræða sölu á innlendum hlutabréfum. Finnski skatturinn er 30 eða 34 %.
Gera þarf grein fyrir sölunni á fylgiblaði 9 með finnska skattframtalinu og færa síðan upplýsingarnar samkvæmt leiðbeiningunum yfir á sjálft skattframtalið.
Hagnaður af sölu hlutabréfa í félagi í öðru norrænu landi má ekki skattleggja í heimalandi félagsins ef þú hefur sjálfur aldrei búið í viðkomandi landi. Ef í undantekningartilvikum arðurinn hefur verið skattlagður í heimalandi félagsins, er komið í veg fyrir tvísköttun með því að lækka finnska skattinn sem nemur erlenda skattinum. Lækkunin getur þó aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemur skatti af sömu tekjum í Finnlandi.