Býrð þú í öðru norrænu landi og starfar í Finnlandi fyrir opinberan aðila?

Þessar upplýsingar eru ætlaðar þér sem býrð í öðru norrænu landi og starfar í Finnlandi fyrir opinberan aðila og fjalla eingöngu um skattlagningu af launum fyrir slíkt starf.

Skilgreining á „opinber aðili“

Opinber aðili merkir í þessu sambandi að launagreiðandi þinn sé ríki, sýsla, sveitarfélag eða opinber stofnun eins og t.d. ríkisrekinn háskóli eða aðrar sambærilegar stjórnsýslustofnanir í Finnlandi.  Aftur á móti falla laun frá hlutafélögum, fjármálastofnunum og öðrum atvinnurekstri í eigu ríkis, sýslna eða sveitarfélaga utan við þessa skilgreiningu. Upplýsingar um skattlagningu launa frá vinnuveitanda sem ekki er skilgreindur sem opinber aðili finnur þú í kaflanum „Býrð þú í öðru norrænu landi og starfar í Finnlandi?".

Opinber aðili í Finnlandi:

Ef þú starfar í Finnlandi fyrir finnskan opinberan aðila, greiðir þú skatta af laununum í Finnlandi. Þú verður einnig að telja launin fram á skattframtali í heimalandinu.

Fari vinnan að hluta til eða að öllu leyti fram í því landi þar sem þú ert heimilisfastur, skattleggst sá hluti launanna í heimalandinu.

Opinber aðili heimilisfastur í öðru norrænu landi:

Ef þú starfar í Finnlandi, en færð laun frá opinberum aðila, heimilisföstum í öðru norrænu landi, er almenna reglan sú að þú greiðir skatt í heimalandi launagreiðandans.

Skattlagning í Finnlandi:

Ef vinnuveitandi þinn er heimilisfastur í Finnlandi, ber honum auk skattsins að halda eftir tryggingagjaldi af laununum, nema þú getir framvísað eyðublaðinu A1 frá heimalandi þínu.

Dvelur þú í Finnlandi skemur en 6 mánuði

Ef þú dvelur í Finnlandi skemur en 6 mánuði, dregur finnski launagreiðandinn þinn endanlegan 35% staðgreiðsluskatt af launum þínum. Þú þarft að sækja um skattkort hjá finnskum skattyfirvöldum og skila inn til launagreiðandans. Skattkortið veitir þér persónuafslátt upp á 17 evrur á dag.

Staðgreiðsluskyldar tekjur þarf ekki að telja fram í Finnlandi.

Einstaklingar með takmarkaða skattskyldu geta óskað eftir að atvinnutekjur séu skattlagðar með þrepaskiftum skatti í stað staðgreiðsluskatti. Sé þess óskað er sótt um það á eyðublaðinu VEROH 6148 sem hægt er að sækja á vefsíðunni skatt.fi eða á skattstofunni.

Dvelur þú í Finnlandi lengur en 6 mánuði

Ef þú dvelur lengur en 6 mánuði í Finnlandi og starfar hjá finnskum launagreiðanda, þarft þú að sækja um skattkort á finnskri skattstofu. Þú þarft að greiða útsvar, hugsanlega kirkjuskatt og stighækkandi tekjuskatt í Finnlandi.

Þú átt rétt á frádrætti vegna útlagðs kostnaðar við öflun teknanna, vaxta vegna íbúðalána og iðgjalda í lífeyrissjóði á sama hátt og þeir sem hafa fasta búsetu í Finnlandi.

Þú þarft að skila inn skattframtali í Finnlandi.

Skattlagning í heimalandinu:

Þú verður einnig að skila inn skattframtali vegna launa frá Finnlandi í heimalandi þínu. Ef tekjurnar eru bæði skattlagðar í Finnlandi og heimalandinu, er það heimalandið sem á að koma í veg fyrir tvísköttun með því að taka tillit til skattsins sem þú greiddir í Finnlandi.

Landamærareglan (Gränsgångarregeln)

Ef þú býrð í norsku eða sænsku sveitarfélagi sem liggur að landamærum Finnlands og ferð yfir landamærin til starfa hjá finnskum launagreiðanda, ert þú skilgreindur sem „gränsgångare" og fellur undir landamæraregluna. Hún kveður á um að þú eigir ekki að greiða skatt í Finnlandi heldur i heimalandinu. Skilyrði fyrir þessari reglu er að þú dveljir í heimalandi þínu, Noregi eða Svíþjóð, minnst tvo daga í viku með einnar nætur dvöl.

Veldu hitt landi hr:   Danmörk | Ísland | Noregur | Svíþjóð