Innheimtu- og skattseðill

Skattauppgjörið

Þegar skattstofan hefur reiknað út endanlegan skatt, færð þú sendan álagningarseðil og álagningarforsendur. Í álagningarforsendunum kemur fram hvaða eignir og tekjur hafa verið skattlagðar og hvaða frádrátt þú færð. Á innheimtuseðlinum getur þú séð hve mikið þú átt að greiða í skatta. Hafir þú greitt of mikið í skatt, færð þú endurgreiðslu. Hafir þú greitt of lítið í skatt verður þú að greiða það sem uppá vantar. Innborgunarseðill verður sendur út með innheimtuseðlinum.

Þú færð álagningarseðilinn um leið og útreikningi á endanlegum skatti er lokið, sem er á tímabilinu mars – október. Hafir þú gefið upp farsímanúmer/tölvupóstfang þá færð þú sent SMS eða tölvupóst um leið og innheimtuseðillinn er aðgengilegur í Altinn.

Endurgreiddur skattur

Ef þú hefur greitt of mikið í skatt, færð þú ofgreiddan skatt endurgreiddan inn á bankareikning þinn. Þú færð reiknaða vexti á ofgreiðsluna.

Ef þú ert ekki með bankareikning í norskum banka eða ef þú óskar eftir að fá ofgreiðsluna yfirfærða á bankareikning í erlendum banka, verður þú að senda inn upplýsingar um bankareikninginn (IBAN, SWIFT/BIC) ásamt nafni banka og heimilisfangi. Einnig verður þú að láta fylgja staðfest ljósrit af vegabréfi (eða öðrum persónuskilríkjum með mynd) og vottorði sem vottar að þú sért skráður fyrir bankareikningnum eða hafir umráðarétt yfir honum.

Skatteetaten sendi ekki útborgunarseðil á heimilisfang erlendis nema þú hafir staðfest að þú búir á því heimilisfangi.

Innborgun af skattaskuld

Ef þú hefur greitt of lítið í skatt, verður þú að greiða það sem uppá vantar áður en fresturinn sem gefin er upp á innborgunarseðlinum sem fylgir með innheimtuseðlinum rennur út. Fari skattaskuldin yfir 1.000 NOK, er skattaskuldinni skipt í tvennt. Frestur til að greiða fyrri innborgunina rennur út þrem vikum eftir að innheimtuseðillinn er sendur út. Frestur til að greiða seinni innborgunina rennur út fimm vikum seinna. Fáir þú innheimtuseðilinn í júní, er fyrsti gjalddagi skattaskuldarinnar 20. ágúst - hvort sem skuldin er yfir eða undir 1.000 NOK.

Skattaskuld á að greiða hjá Skatteoppkreverkontoret í því bæjarfélagi sem þú ert skattskyldur í. Þú þarft að greiða dráttarvexti af skattaskuldinni.

Ef þú villt komast hjá því að greiða vexti af skattaskuldinni, getur þú greitt viðbótargreiðslu fyrir 31. maí. Upplýsingar um bankareikning og KID-númer til að nota við viðbótargreiðsluna er að finna á skattframtalinu

Þú átt að greiða áður en fresturinn er útrunninn jafnvel þó þú hafir sent inn beiðni um leiðréttingu á skattframtalinu. Ef þú greiðir of seint leggjast dráttarvextir á upphæðina. Borgir þú ekki skattaskuldina, munu yfirvöld fylgja málinu eftir og senda kröfu á vinnuveitanda þinn um að hann dragi skuldina af launum þínum ef þú vinnur enn í Noregi. Eigir þú eignir í Noregi, geta yfirvöld tekið veð í þeim.

Norsk yfirvöld fá líka aðstoð frá erlendum yfirvöldum til þess að innheimta fjárhæðir sem ekki eru greiddar.

Rétt heimilisfang hjá skattyfirvöldum

Til þess að þú getir fengið skattkort, skattframtal og álagningar- og innheimtuseðil sent til þín er mikilvægt að heimilisfang þitt sé rétt skráð hjá skattyfirvöldum.

Ef þú ert búsettur í Noregi verður þú að muna að þú þarft alltaf að tilkynna breytingar á heimilisfangi til Þjóðskrár (folkeregisteret). Þú finnur flutningstilkynningu á skatteetaten.no.

Ef þú ætlar að flytja frá Noregi til lands utan Norðurlandanna, verður þú að tilkynna það til skattstofunnar þinnar í Noregi. Ef þú ætlar að flytja til annars norræns lands, þarft þú aðeins að tilkynna flutninginn í landinu sem þú flytur til.

Ef þú ert ekki búsettur í Noregi, þarft þú að láta skattstofuna vita þegar þú flytur á nýtt heimilisfang. Þú getur sent Melding om ny/endret postadresse til skattstofunnar. Mundu að senda með ljósrit af gildu persónuskilríki sem sýnir fæðingardag, nafn, undirritun og mynd.