Skattframtalið

Þetta varðar þig sem býrð í öðru norrænu landi og sem ert með tekjur og/eða eignir í Noregi

Hverjir eiga að skila framtali í Noregi?

Allir sem hafa tekjur og/eða eignir sem eru skattskyldar í Noregi eiga að skila inn framtali til norskra skattyfirvalda. Skylda til að skila framtali gildir hvort sem þú berð takmarkaða eða ótakmarkaða skattskyldu.

Ef launatekjurnar þínar eru skattlagðar með flötum skatti, þarft þú ekki að skila skattframtali vegna launateknanna. Þú þarf heldur ekki að skila skattframtali ef þú færð eingöngu arð frá norsku félagi eða starfars em listamaður eða íþróttamaður í Noregi.

Hvernig skilar þú inn framtali?

Í mars / apríl árið eftir tekjuárið færð þú sent framtal frá skattyfirvöldum. Búið er að forskrá í framtalið upplýsingar sem skattyfirvöld hafa fengið frá vinnuveitendum, bönkum, tryggingafélögum, dagheimilum o.fl.

Þú þarft að yfirfara upplýsingarnar til að fullvissa þig um að þær séu fullnægjandi og réttar.

Ef upplýsingarnar í framtalinu eru ekki réttar eða ef upplýsingar vantar, þarft þú að leiðrétta framtalið og skila því fyrir lok skilafrestsins. Þú getur skilað framtalinu rafrænt á skatteetaten.no eða á pappír. Hafir þú fengið „Skattemelding for formues- og inntektsskatt - lønnstakere og pensjonister mv.", getur þú sleppt því að skila framtalinu að því tilskyldu að allar upplýsingar séu fullnægjandi og réttar. Skilir þú ekki framtalinu, telst framtalinu skilað með þeim forskráðu upplýsingum sem í því eru.

Hafir þú ekki móttekið framtal með forskráðum upplýsingum, verður þú að hafa samband við skattstofuna. Fáir þú ekki framtal með forskráðum upplýsingum, verður þú sjálfur að fylla í og skila framtali á eyðublaðinu RF-1281. Eyðublaðið finnur þú á skatteetaten.no/skjema.

Ef þú hefur fengið sendan bráðabirgðaútreikning skatta með framtalinu sem sýnir að þú hafir greitt of lágan skatt í staðgreiðslu, sleppur þú við að greiða vexti af mismuninum ef þú greiðir mismuninn inn fyrir 31. maí. Þú finnur upplýsingar um reiknings- og KID-númer til nota við greiðslu mismunarins á framtalinu. Vinsamlegast athugaðu að ef þú breytir tekju- eða frádráttarupphæðum í framtalinu, breytist einnig lokaskatturinn.

Hvenær á að skila framtalinu?

Frestur til að skila „Skattemelding for formues- og inntektsskatt - lønnstakere og pensjonister mv." er til 30. apríl. Skilir þú ekki framtalinu, telst því vera skilað með þeim forskráðu upplýsingum sem í því eru.

Ef þú ert sjálfstætt starfandi (einsmannsfyrirtæki) er frestur til að skila „Skattemelding for formues- og inntektsskatt - personlige næringsdrivende mv.“ 31. maí. Þú verður að skila framtalinu rafrænt.

Heimildin um undanþágu frá skilum á aðeins við um þá sem fá „Skattemelding for formues- og inntektsskatt - lønnstakere og pensjonister mv.“

Skipti á upplýsingum milli skattyfirvalda

Til að tryggja rétta skattlagningu hafa öll Norðurlöndin þá reglu að vinnuveitendur, bankar o.fl. eigi að senda skattyfirvöldum upplýsingar um greidd laun, lífeyri, arð, vexti o.fl. Hér eiga m.a. að koma fram nöfn viðtakenda og heimilisföng, hvernig tekjur er um að ræða ásamt fjárhæð.  Þessi upplýsingaskylda gildir einnig um greiðslur til einstaklinga sem búsettir eru í öðrum löndum.

Til að tryggja nákvæma skattlagningu hafa öll Norðurlöndin komið sér saman um að skiptast á upplýsingum. Upplýsingaskiptin fara fram árlega milli sérvaldra eininga hjá skattyfirvöldum og gegnum öruggar boðleiðir. Mikið magn upplýsinga streymir milli Norðurlandanna. Þessar upplýsingar eru notaðar af skattyfirvöldum í búsetulandinu til að hafa eftirlit með því að einstaklingar með starfsemi yfir landamæri hafi uppfyllt skyldur sínar um að upplýsa um tekjur og eignir erlendis.