Býrð þú í öðru norrænu landi og færð lífeyri frá Íslandi?
Þessar upplýsingarnar eru ætlaðar þér sem býrð í öðru norrænu landi en færð lífeyri frá Íslandi. Með lífeyri er átt við elli- eða örorkulífeyri. Upplýsingarnar taka aðeins til skattlagningar lífeyristekna.
Skattlagning á Íslandi
Þú átt að greiða skatt af lífeyrinum á Íslandi. Í því sambandi skiptir ekki máli hvort lífeyrinn er greiddur út af Tryggingastofnun ríkisins eða lífeyrissjóðum. Skattprósentan er sú sama og hjá þeim sem eru heimilisfastir á Íslandi og veittur er fullur persónuafsláttur á móti skatti af lífeyrinum.
Þú átt að skila inn framtali á Íslandi, en í því átt þú eingöngu að telja fram þær tekjur sem þú hefur frá Íslandi.
Skattlagning í heimalandinu
Þú átt einnig að gera grein fyrir lífeyrinum á framtali í heimalandinu, en lífeyrinn getur einnig verið skattskyldur þar. Ef þú ert skattlagður bæði á Íslandi og í heimalandinu, er það heimalandið sem þarf að gæta þess að lífeyrinn verði ekki tvískattaður með því að taka tillit til þeirra skatta sem þú greiddir á Íslandi, í samræmi við tvísköttunarsamning sem Norðurlöndin hafa gert sín á milli.