Býrð þú í öðru norrænu landi en starfar á Íslandi sem listamaður eða íþróttamaður?

Þessar upplýsingar eru ætlaðar þér sem býrð í öðru norrænu landi en starfar sem listamaður eða íþróttamaður á Íslandi og fjalla eingöngu um skattlagningu af launum fyrir slíkt starf.        

Skattlagning  á Íslandi:

Ef þú starfar sem listamaður eða íþróttamaður á Íslandi en ert heimilisfastur í öðru norrænu landi, ertu skattskyldur á Íslandi vegna þeirra starfa.

Takmörkuð skattskylda:

Launatekjur skattleggjast á Íslandi eftir þeim almennu reglum sem gilda um skattlagningu launatekna.

Sjálfstætt starfandi listamenn og íþróttamenn sem koma til Íslands greiða skatt af þeim tekjum sem þeir afla hér. Persónuafsláttur heimilast ekki í þessum tilvikum. Skatthlutfall er mismunandi eftir því hvort lista- eða íþróttamaðurinn starfar sem einstaklingur eða lögaðili. Verkkaupi ber ábyrgð á að halda eftir og skila inn staðgreiðslu af verktakalaununum og er sú greiðsla fullnaðargreiðsla.

Þó skal sá sem kemur fram í atvinnuskyni til skemmtunar eða keppni án ákveðinna launa eða þóknunar, en nýtur þess í stað afraksturs af slíkri starfsemi, greiða 15% tekjuskatt af heildartekjum án frádráttar og 14,44% útsvar.  Í þeim tilvikum þarf ekki að skila skattframtali og er þá staðgreiðslan endanlegt uppgjör.

Ótakmörkuð skattskylda:

Þú berð ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi ef þú dvelur þar 183 daga eða lengur á tólf mánaða tímabili. Sjá kaflann „Almennar upplýsingar - ótakmörkuð skattskylda“.  Launatekjur skattleggjast á Íslandi eftir þeim almennu reglum sem gilda um skattlagningu launatekna.

Skattlagning í heimalandinu:

Þó að þú hafir dvalið tímabundið á Íslandi og borið þar takmarkaða skattskyldu heldur þú fullri skattskyldu í heimalandinu. Þér ber því að gera grein fyrir tekjum sem aflað er á Íslandi og sköttum greiddum á Íslandi á skattframtali í heimalandinu. Á það jafnt við hvort sem tekjurnar eru skattskyldar á Íslandi eða í heimalandinu. Við skattlagningu teknanna í heimalandinu er tekið tillit til skatta sem greiddir voru á Íslandi.

Veldu hitt landi hr:   Danmörk | Noregur | Finnland | Svíþjóð