Býrð þú í öðru norrænu landi og starfar í Danmörku fyrir opinberan aðila?

Þessar upplýsingar eru ætlaðar þér sem býrð í öðru norrænu landi og starfar í Danmörku fyrir opinberan aðila og fjalla eingöngu um skattlagningu af launum fyrir slíkt starf.

Skilgreining á „opinber aðili"

Launagreiðandi þinn er skilgreindur sem opinber aðili ef þú ert ráðinn til starfa fyrir ríki, sysla, sveitarfélag, opinbera stofnun eða sambærilega stjórnsýslustofnun á hinum Norðurlöndunum. Ríkisreknir háskólar í öðrum löndum en Finnlandi eru skilgreindir sem opinberir aðilar. Aftur á móti eru finnsku háskólarnir skilgreindir sem einkaaðilar. Hlutafélag í eigu ríkis eða sveitarfélags er ekki skilgreint sem opinber aðili. Ríki og sveitarfélög eru heldur ekki skilgreind sem opinber aðili ef starfsemi þeirra tengist atvinnurekstri.  

Ef vinnuveitandi þinn er ekki opinber aðili, verður þú skattlagður samkvæmt þeim reglum sem lýst er í „Býrð þú í öðru norrænu landi og vinnur í Danmörku fyrir einkaaðila?".

Opinber aðili í Danmörku:

Ef þú starfar í Danmörku fyrir danskan opinberan aðila, greiðir þú skatta af laununum í Danmörku. Fari vinnan að hluta til eða að öllu leyti fram í því landi þar sem þú ert heimilisfastur, skattleggst sá hluti launanna í heimalandinu.

Opinber aðili heimilisfastur í öðru norrænu landi:

Ef þú starfar í Danmörku en færð laun frá opinberum aðila, heimilisföstum í öðru norrænu landi, er almenna reglan sú að þú greiðir skatt í heimalandi launagreiðandans.

Þú ert ekki skattskyldur af þeim launum í Danmörku og þarft ekki að skila inn skattframtali þar.

Skattlagning í Danmörku:

Takmörkuð skattskylda

Ef þú starfar tímabundið fyrir opinberan aðila í Danmörku en ert búsettur í öðru norrænu landi, berð þú takmarkaða skattskyldu í Danmörku. Laun vegna starfa sem innt eru af hendi í Danmörku eru skattskyld þar. Reglur um frádrátt, persónufrádrátt, landamæraregluna og sérreglur fyrir Danmörk/Svíþjóð er að finna í kaflanum „Býrð þú í öðru norrænu landi en starfar í Danmörku?"

Skattkort og kennitölu færð þú hjá skattyfirvöldum í Danmörku. Þú þarft að skila inn skattframtali þar.

Ótakmörkuð skattskylda

Þó þú starfir tímabundið fyrir opinberan aðila í Danmörku með búsetu í öðru norrænu landi, getur þú borið ótakmarkaða skattskyldu í Danmörku hafir þú þar húsnæði til ráðstöfunar eða dveljir þar næturlangt það marga daga að þú fallir undir regluna um dvalartíma. Sjá kaflann „Almennar upplýsingar - ótakmörkuð skattskylda".

Laun þín eru skattlögð samkvæmt almennum skattareglum og þú þarft að skila inn skattframtali.

Skattlagning í heimalandinu:

Þar sem þú berð fulla skattskyldu í heimalandinu, eru launin einnig skattskyld þar. Þú verður því að skila inn framtali vegna launanna í heimalandinu. Ef tekjurnar eru bæði skattlagðar í Danmörku og heimalandinu, er það heimalandið sem á að koma í veg fyrir tvísköttun með því að taka tillit til skattsins sem þú greiddir í Danmörku.

Landamærareglur:

Landamærareglur á milli Svíþjóðar og Danmerkur eru ekki lengur í gildi. Það er þó í gildi regla fyrir þá sem uppfylltu skilyrði landamærareglna hinn 1. janúar 1997 og uppfylla þau enn.

Það er auk þess til ný landamæraregla í dönskum skattalögum. Samkvæmt henni skattleggst aðili með takmarkaða skattskyldu eftir reglunum um ótakmarkaða skattskyldu. Sjá nánar undir kaflanum „Almennar upplýsingar - takmörkuð skattskylda".

Veldu hitt landi hr:   Ísland | Noregur | Finnland | Svíþjóð