Takmörkuð skattskylda

Sá sem ekki ber ótakmarkaða skattskyldu ber þess í stað takmarkaða skattskyldu, þ.e. greiðir aðeins skatt af vissum tekjum.

Hver er skattskylda þín?

Ef þú berð takmarkaða skattskyldu greiðir þú aðeins skatt af vissum tekjum frá Svíþjóð og ekki af tekjum sem þú t.d. kannt að hafa í heimalandi þínu. Ákvæði skattasamninga geta valdið takmörkun á rétti Svíþjóðar til skattlagningar.

Skattskyldar tekjur eru t.d. laun, lífeyrir og farmannatekjur og af þeim greiðir þú sérstakan tekjuskatt fyrir þá sem eru búsettir erlendis (SINK) sem er 25 %. Á tekjur farmanna er SINK-skatturinn 15 %. Ef þú færð þóknun sem listamaður eða íþróttamaður greiðir þú í staðinn sérstakan tekjuskatt lista-, íþróttamanna o.fl. sem eru búsettir erlendis (A-SINK) sem er 15 %. Þú getur einnig kosið að vera skattlagður/skattlögð samkvæmt venjulegum skattareglum og greiða tekjuskatt og útsvar. Þú verður hins vegar að uppfylla ákveðin skilyrði til að geta notað t.d. grunnfrádráttinn í Svíþjóð.

Þú ert skattskyld(ur) ef þú ert með rekstur frá fastri starfsstöð í Svíþjóð eða átt atvinnuhúsnæði hér. Af slíkum rekstrartekjum átt þú að greiða tekjuskatt og útsvar.

Hagnaður af hlutabréfum o.þ.h., vaxtatekjum og arðstekjum er skattlagður sem fjármagnstekjur og er skatthlutfallið 30 prósent. Ef þú leigir út einkaheimili þinn eða selur fasteign/búsetturétt sem er einkaheimili þitt, skattleggjast leigutekjurnar/söluágóðinn einnig sem fjármagnstekjur. Við útleigu mynda nettó leigutekjurnar stofn til skattlagningar, en við sölu myndar 22/30 af ágóðanum stofn til skattlagningar. Reiknaður skattur er 30% af upphæðinni.
 

Af hagnaði af hlutabréfum og hlutum í sænskum verðbréfasjóðum er greiddur arðmiðaskattur. Hann er 30%, en ef þú býrð í einhverju öðru norrænu ríkjanna er hann helmingi lægri eða 15%.

Ef þú átt fasteign í Svíþjóð þarftu að greiða gjald til sveitarfélagsins vegna hennar. Fasteignaskattur er lagður á óbyggð lönd, leigulóðir, leiguhúsnæði, iðnaðarhúsnæði o.þ.h.

Hver ber takmarkaða skattskyldu?

Þú berð takmarkaða skattskyldu hér ef þú ert ekki búsett(ur) í Svíþjóð, dvelst ekki hér stöðugt eða hefur ekki náin tengsl hér. Þetta á t.d. við um þig sem ekki hefur búið í Svíþjóð áður og sem hefur dvalið hér skemur en sex mánuði. Þetta á einnig við um þig sem ekki gistir hér heldur kemur hingað daglega til vinnu frá grannlandi þótt þessi tilhögun standi yfir í langan tíma.