Býrð þú í öðru norrænu landi og ætlar að vinna sem verktaki Svíþjóð?

Þessar upplýsingar eru ætlaðar þér sem ert búsettur í öðru norrænu landi en ætlar að vinna í Svíþjóð sem verktaki. Upplýsingarnar taka einungis til skattlagningar slíkra tekna.

Skráning í Svíþjóð

Þú getur sótt um að fá F-skattkort hjá Skatteverket ef þú ætlar að hefja verktakastarfsemi í Svíþjóð. F-skattkortið sýnir þú verkkaupa, en það segir honum að þú munir sjálfur taka ábyrgð á greiðslu skatta og annarra launatengdra gjalda hvort sem gjöldin eiga að greiðast í Svíþjóð eða í öðru norrænu landi. Til þess að starfsemin verði flokkuð sem verktakastarfsemi í Svíþjóð þarft hún að vera sjálfstæð, varanleg og rekin með arðsemi í huga.

Ef þú ert ekki með fasta starfsstöð, þarft þú að sækja um á eyðublaðinu SKV 4632. Ef þú færð fasta starfsstöð í Svíþjóð þarft þú að sækja um á eyðublaði SKV 4620. Skilgreiningu á hugtakinu „föst starfsstöð" samkvæmt tvísköttunarsamningnum, er að finna undir fyrirsögninni „Almennar upplýsingar / föst starfsstöð". Nánari upplýsingar um skráningu eru í bæklingunum SKV 418 og 419 sem er að finna á www.skatteverket.se Þegar þú hefur fyllt út eyðublaðið sendir þú það til alþjóðadeildar skattsins annaðhvort í Malmö eða Stokkhólmi (ef þú ert frá Danmörku, Íslandi, Færeyjum eða Grænlandi átt þú að senda eyðublaðið til Malmö og ef þú ert frá Noregi eða Finnlandi átt þú að senda það til Stokkhólms).  Ef búseta þín í Svíþjóð varir lengur en 6 mánuði (með næturdvölum), átt þú að senda eyðublaðið til þeirrar skattstofu í Svíþjóð sem sveitarfélagið sem þú býrð í tilheyrir.

Þér verður úthlutað sænskri „skattregistreringsnummer" (skattkennitölu) þegar þú skráir þig hjá Skatteverket.

Þú þarft hugsanlega einnig að skrá þig vegna tekjuskatts (F-skatt), virðisaukaskatts og sem atvinnurekandi. Þetta er gert á eyðublöðunum sem talin voru upp hér að ofan, sjá nánari upplýsingar hér að neðan.

Tekjuskattur

Þú átt að greiða skatt í Svíþjóð ef þú ert með fasta starfsstöð í Svíþjóð.

Þú átt einnig að greiða skatt í Svíþjóð ef þú ert t.d. læknir, endurskoðandi, verkfræðingur eða ráðgjafi (s.k. sjálfstætt starfandi) og þú ert með ótakmarkaða skattskyldu í Svíþjóð og dvelur í Svíþjóð lengur en 183 daga á 12 mánaða tímabili. Þetta gildir einnig þó þú sért ekki með fasta starfsstöð

Ef þú færð fasta starfsstöð átt þú að greiða tekjuskatt í Svíþjóð vegna þess hluta veltunnar sem tilheyrir hinni föstu starfsstöð.

Skilgreiningu á hugtakinu „föst starfsstöð" samkvæmt tvísköttunarsamningnum, er að finna undir fyrirsögninni "Almennar upplýsingar / föst starfsstöð".

Einungis sá hluti rekstrarteknanna (tekjur að frádregnum kostnaði) sem koma frá hinni föstu starfstöð, eða sem eru skattskyldar samkvæmt reglum um sjálfstæða starfsemi, eru skattlagðar í Svíþjóð. Ef þú reiknar með hagnaði vegna starfseminnar í Svíþjóð þarft þú reglubundið að skila inn staðgreiðslu (F-skatt) á árinu. Greiða þarf mánaðarlega. Nánari upplýsingar um skattareglur fyrir verktaka í Svíþjóð finnur þú í bæklingnum SKV 295, „Skatteregler for enskilda näringsidkare" sem finna má á www.skatteverket.se.

Ef þú ert með takmarkaða skattskyldu  í Svíþjóð, greiðir þú 25% útsvar og tekjuskatt samkvæmt ákveðnum reglum. Sjá nánar undir „Almennar upplýsingar/skattstigar".

Ef þú ert skilgreindur með ótakmarkaða skattskyldu í Svíþjóð, t.d. ef þú dvelur lengur en 6 mánuði samfleytt í landinu, ert þú skattlagður með þeirri útsvarsprósentu sem í gildi er í því sveitarfélagi sem þú ert búsettur í. Að öðru leyti er tekjuskattur reiknaður samkvæmt þeim reglum sem nefndar voru hér að ofan.

Framtali með rekstrarskýrslum (SKV 2161 eða SKV 2150) sem byggja á sænskum skattalögum þarf að skila ári eftir tekjuárið, eða seinast 2. maí ef þú ert búsettur erlendis.

Þú átt ekki að greiða skatt í Svíþjóð ef þú ert ekki með fasta starfsstöð eða reglurnar um sjálfstæða starfsemi í Svíþjóð ná ekki yfir þig.

Almannatryggingar

Það eru í gildi sérstakar reglur sem segja til um hvar þú átt að vera tryggður. Þú þarft að hafa samband við tryggingastofnun í því landi sem þú býrð í eða Tryggingastofnun í Svíþjóð (www.forsakringskassan.se) til að fá nánari upplýsingar.

Skattur

Ef þú ert með starfsmenn og fasta starfsstöð í Svíþjóð, ber þér skylda til að skrá þig sem atvinnurekanda í Svíþjóð. Þú þarft að halda eftir og skila inn sænskri staðgreiðslu af þeim hluta launanna sem starfsmenn þínir afla í Svíþjóð.

Ef þú ert ekki með fasta starfsstöð í Svíþjóð, þarft þú ekki að halda eftir og skila inn sænskri staðgreiðslu, jafnvel þó starfsmennirnir séu skattskyldir í Svíþjóð.

Starfsmennirnir bera sjálfir ábyrgð á því að greiða skattinn inn til sænskra skattyfirvalda.

Tryggingargjald

Ef starfsmennirnir falla undir almannatryggingalöggjöf annars lands, þarf ekki að greiða tryggingargjald vegna þeirra í Svíþjóð, heldur greiðist það í því landi þar sem starfsmennirnir eru tryggðir. Framvísa þarf vottorði fyrir starfsmennina sem sýnir að þeir falli undir tryggingalöggjöf annars lands.

Ef einhver starfsmannanna fellur undir sænska tryggingalöggjöf, þarf aftur á móti að greiða tryggingagjald (arbetsgivaravgift) í Svíþjóð. Þá þarft þú að skrá þig sem atvinnurekanda í Svíþjóð til að geta greitt tryggingagjaldið jafnvel þó þú hafir ekki fasta starfsstöð þar. Sjá nánari upplýsingar um prósentur undir „upplýsingar / Almannatryggingar".

Gera þarf grein fyrir bæði tryggingagjaldinu og afdreginni staðgreiðslu mánaðarlega á skilagreinum.

Launamiði

Óháð því hvort þú ert með fasta starfsstöð í Svíþjóð eða ekki, þá þarft þú að skila inn sænskum launamiða (eyðublað SKV 2300, 2343 eða 2309) til skattyfirvalda ef einhver starfsmanna þinna vinnur í Svíþjóð og er skattskyldur þar eða fellur undir sænska tryggingalöggjöf. Sjá nánari upplýsingar um sænska launamiða í bæklingnum SKV 304.

Virðisaukaskattur

Þegar erlendur verktaki, þ.a.e.s. einstaklingur sem ekki hefur fasta starfsstöð, býr eða hefur fastan dvalarstað í Svíþjóð, er með virðisaukaskattsskylda sölu af vöru eða þjónustu í Svíþjóð á að greiða virðisaukaskatt. Hver á að greiða skattinn (þ.a.e.s. hver er skattskyldur) byggir á því hvaða vöru eða þjónustu um er að ræða og hver kaupir hana.

Þegar erlendur verktaki selur vöru í Svíþjóð til viðskiptavinar sem er virðisaukaskattskyldur í Svíþjóð gilda öfugar reglur, það er að segja þá er það kaupandinn sem er skattskyldur vegna kaupanna. Seljandinn getur þó sótt um að fara á virðisaukaskattsskrá og verða þar með skattskyldur af allri slíkri sölu.

Ef kaupandinn er ekki virðisaukaskattskyldur í Svíþjóð (t.d. einkaaðili eða erlent fyrirtæki) verður seljandinn að vera á virðisaukaskattsskrá og greiða virðisaukaskatt í Svíþjóð.

Þegar erlendur verktaki vinnur fyrir annan verktaka á fastri starfsstöð hans innanlands er þjónustan talin innt af hendi í Svíþjóð. Í flestum tilvikum gilda þá öfugar reglur, það er að segja að þá er það kaupandinn sem þarf að greiða virðisaukaskatt af vinnunni.

Til eru margar undantekningar frá meginreglunni hér að ofan, allt eftir því um hvaða þjónustu er að ræða, hvar hún er veitt og hvaða stöðu kaupandinn hefur.

Vinna við fasteign fer t.d. fram þar sem fasteignin er staðsett. Ef erlendur verktaki framkvæmir vinnu á fasteign sem einkaaðili á í Svíþjóð þá þarf erlendi verktakinn að vera á virðisaukaskattskrá og greiða virðisaukaskatt í Svíþjóð.

Nánari upplýsingar um hvaða reglur gilda við kaup og sölu á vörum og þjónustu er að finna á heimasíðu skattyfirvalda www.skatteverket.se. Þú getur einnig snúið þér til þeirrar skattstofu sem sér um málefni erlendra fyrirtækja frá því landi sem ert frá. Skattstofan fyrir erlend málefni „Utlandsskattekontoret" í Malmö sér um verktaka frá Danmörku, Íslandi, Grænlandi og Færeyjum og Skattstofa 9 í Stokkhólmi sér um verktaka frá Finnlandi og Noregi.

Hafðu samband við Skatteupplysningen í Svíþjóð í síma 0771-567 567 eða ef þú hringir erlendis frá  í síma +46 8 564 851 60 og þeir leiðbeina þér áfram.

Veldu hitt landi hr:   Danmörk | Ísland | Noregur | Finnland |