Býrð þú í Svíþjóð og ætlar að vinna sem verktaki í öðru norrænu landi?

Þessar upplýsingar eru ætlaðar þér sem ert búsettur í Svíþjóð en ætlar að vinna í öðru norrænu landi sem verktaki. Upplýsingarnar taka einungis til skattlagningar slíkra tekna.

Tekjuskattur í Svíþjóð

Ef þú ert búsettur í Svíþjóð, þarft þú að gera grein fyrir verktakastarfsemi þinni og greiða tekjuskatt í Svíþjóð samkvæmt sænskum reglum. Það þýðir að þú þarft einnig að gera grein fyrir þeim hluta starfseminnar sem unninn er í öðru norrænu landi í sænsku rekstrarskýrslunni.

Eigir þú einnig að greiða tekjuskatt í hinu landinu, getur þú krafist þess að fá þann skatt frádreginn þeim skatti sem þér ber að greiða í Svíþjóð, skv. svokallaðri frádráttarreglu.

Skattlagning í hinu landinu

Þú ert einungis skattlagður af verktakalaunum í öðru norrænu landi ef þú ert með fasta starfsstöð þar. Aðeins þann hluta teknanna/kostnaðarins sem hægt er að rekja til hinnar föstu starfsstöðvar má skattleggja þar. Skattlagningin í hinu landinu fer fram samkvæmt lögum þess lands.

Ef þú ert t.d. læknir, endurskoðandi, verkfræðingur eða ráðgjafi (s.k. sjálfstætt starfandi), getur þú einnig orðið skattskyldur í vinnulandinu ef þú dvelur þar í meira en 183 daga á 12 mánaða tímabili. Þetta á við þó að þú sért ekki með fasta starfsstöð þar.

Skilgreiningu á hugtakinu föst starfsstöð samkvæmt tvísköttunarsamningnum, er að finna undir fyrirsögninni „Almennar upplýsingar / föst starfsstöð".

Til að fá nánari upplýsingar um skattlagningu o.fl. í hinu landinu, smelltu á viðkomandi land neðst á þessari síðu.

Almannatryggingar

Það eru í gildi sérstakar reglur sem segja til um hvar þú átt að vera tryggður. Þú þarft að hafa samband við Tryggingastofnun í Svíþjóð (www.forsakringskassan.se) eða tryggingastofnunina í því landi sem sem þú vinnur í til að fá nánari upplýsingar.

Virðisaukaskattur

Ef þú starfar sem verktaki í öðru norrænu landi þarft þú hugsanlega að skrá þig á virðisaukaskattsskrá í samræmi við reglur þess lands. Til að fá nánari upplýsingar um reglur um virðisaukaskatt í hinu landinu, smelltu á viðkomandi land neðst á þessari síðu.

Veldu hitt landi hr:   Danmörk | Ísland | Noregur | Finnland |