Býrð þú i einu hinna Norðurlandanna og átt fasteign  í Svíþjóð?

Upplýsingarnar hér eru ætlaðar þeim, sem búa í einhverju öðru norrænu ríkjanna, en eiga búseturétt (hlutabréf eða hluta í húsi sem felur í sér afnotarétt á íbúð) eða einbýlis- eða tvíbýlishús (smáhús) í Svíþjóð, sem viðkomandi eða hans nánustu nota, að öllu leyti eða hluta, til fastrar búsetu eða sem sumarbústað, þ.e. það sem nefnt er einkabústaður.

Skattlagning í Svíþjóð

Þú ert skattlagður/skattlögð í Svíþjóð vegna einkabústaðarins hér. Ef þú leigir hann út eru leigutekjurnar skattlagðar og hagnaður við sölu á honum er einnig skattskyldur. Skattmat eigna er álagningarstofn gjalda til sveitarfélaga.

Þú átt að skila inn skattframtali í Svíþjóð.

Skattlagning vegna útleigu

Leigutekjur eru skattlagðar. Leigan sem leigutakinn greiðir þér eru skattskyldar tekjur. Þú mátt draga frá SEK 40.000 á ári og að auki upphæð sem samsvarar 20% af leigutekjunum (ef leigutaki (búseturétthafi) leigir út íbúð sem hann hefur á leigu, þá má hann draga frá leigutekjunum leigu sem hann greiðir sjálfur í staðin fyrir 20%). Frádrátturinn miðast við fasteign óháð því hve margir eigendurnir eru. Frádrátturinn má ekki vera hærri en leigutekjurnar og ekki er heimilt að draga frá raunkostnað þótt hann hafi verið hærri.

Leigutekjurnar eru skattlagðar sem fjármagnstekjur og skatturinn er 30%.

Sala á einkabústað

Hagnaður af sölu á einkabústað er skattskyldur. Tap af sölunni er frádráttarbært en ef þú hefur engar tekjur getur þú aðeins notað tapið til að lækka fasteignaskattinn.

Hagnaðurinn eða tapið er munurinn á tekjum og kostnaði. Tekjurnar samsvara söluverðinu að frádregnum kostnaðinum við söluna svo sem þóknun fasteignasala og þess háttar. Kostnaðurinn er kaupverð einkabústaðarins að viðbættum kostnaði vegna endurbóta á honum sem nam a.m.k. SEK 5 000 á ári.

22/30 hlutar útreiknaðs hagnaðar eru skattskyldir sem fjármagnstekjur. Skatturinn á skattskyldan hagnað er 30%. Að vissum skilyrðum uppfylltum er hægt að fresta skattlagningu söluhagnaðarins.

Ef útreikningurinn sýnir tap er helmingur tapsins frádráttarbær undir tekjuliðnum fjármagnstekjur. Ef þú ert með tap á fjármagnsliðum getur þú fengið lægri skatt með s.k. skattalækkun þegar endanleg álagning er reiknuð út.

Fasteignaskattur

Það er ekki lagður á fasteignaskattur í Svíþjóð eftir 1. janúar 2008. Í staðinn innheimtir sveitarfélagið 0,75% af fasteignamati á fasteignir, að hámarki SEK 8 524 á ári.

Veldu hitt landi hr:   Danmörk | Ísland | Noregur | Finnland |