Býrð þú í öðru norrænu landi og starfar í Svíþjóð fyrir opinberan aðila?

Þessar upplýsingar eru ætlaðar þér sem býrð í öðru norrænu landi og starfar í Svíþjóð fyrir opinberan aðila og fjalla eingöngu um skattlagningu af launum fyrir slíkt starf.

Skilgreining á „opinber aðili“

Launagreiðandi þinn er skilgreindur sem opinber aðili ef þú ert ráðinn til starfa fyrir ríki, sysla, sveitarfélag, opinbera stofnun eða sambærilega stjórnsýslustofnun á hinum Norðurlöndunum. Ríkisreknir háskólar í öðrum löndum en Finnlandi eru skilgreindir sem opinberir aðilar. Aftur á móti eru finnsku háskólarnir skilgreindir sem einkaaðilar. Hlutafélag í eigu ríkis eða sveitarfélags er ekki skilgreint sem opinber aðili. Ríki og sveitarfélög eru heldur ekki skilgreind sem opinber aðili ef starfsemi þeirra tengist atvinnurekstri.

Ef vinnuveitandi þinn er ekki opinber aðili, verður þú skattlagður samkvæmt þeim reglum sem lýst er í „Býrð þú í öðru norrænu landi og vinnur í Svíþjóð fyrir einkaaðila?".

Opinber aðili í Svíþjóð:

Ef þú starfar í Svíþjóð fyrir sænskan opinberan aðila, greiðir þú skatta af laununum í Svíþjóð. Fari vinnan að hluta til eða að öllu leyti fram í því landi þar sem þú ert heimilisfastur, skattleggst sá hluti launanna í heimalandinu.

Opinber aðili heimilisfastur í öðru norrænu landi:

Ef þú starfar í Svíþjóð en færð laun frá opinberum aðila, heimilisföstum í öðru norrænu landi, er almenna reglan sú að þú greiðir skatt í heimalandi launagreiðandans.

Skattlagning í Svíþjóð:

Takmörkuð skattskylda:

Þú átt að greiða sérstakan tekjuskatt fyrir erlendis búsetta (SINK) af launum þínum, ef þú hefur hvorki fasta búsetu né veruleg tengsl í Svíþjóð, heldur starfar þar tímabundið. Sama regla gildir einnig um þá sem fara daglega frá öðru norrænu landi yfir landamærin til Svíþjóðar vegna vinnu og breytir engu þó ekki sé um tímabundið starf að ræða.

SINK er endanlegur 25 % staðgreiðsluskattur sem hinn sænski launagreiðandi þinn dregur af þér. Frádráttur er ekki leyfður og þú þarft ekki að skila skattframtali í Svíþjóð. Þú eða launagreiðandi þinn getið sótt um að fá að greiða SINK-skatt hjá skattyfirvöldum á eyðublaðinu SKV 4350.

Í stað þess að greiða SINK skatt átt þú möguleika á að velja að vera skattlagður eftir almennum skattareglum og geta dregið frá ýmsan kostnað. Það eru þó viss skilyrði fyrir nýtingu persónuafsláttar í Svíþjóð.

Ótakmörkuð skattskylda:

Þó þú starfir tímabundið fyrir opinberan aðila í Svíþjóð með búsetu í öðru norrænu landi, getur þú borið ótakmarkaða skattskyldu í Svíþjóð ef þú dvelur þar það lengi að það er orðin spurning um stöðuga dvöl eða þú hafir áður verið búsettur í Svíþjóð og haldir þar enn verulegum tengslum.

Þú ert skattlagður samkvæmt almennum skattareglum og greiðir bæði útsvar og tekjuskatt af launum þínum. Þú þarft að skila inn skattframtali í Svíþjóð.

Launagreiðandi þinn dregur skattinn af launum þínum og telji hann þörf á að þú framvísir A-skattkorti, getur þú fengið það hjá sænskum skattyfirvöldum.

Skattlagning í heimalandinu:

Þar sem þú berð fulla skattskyldu í heimalandinu, eru launin einnig skattskyld þar. Þú verður því að skila inn framtali vegna launanna í heimalandinu. Ef tekjurnar eru skattlagðar bæði í Svíþjóð og í heimalandinu, er það heimalandið sem á að koma í veg fyrir tvísköttun með því að taka tillit til skattsins sem þú greiddir í Svíþjóð.

Landamærareglan (Gränsgångarregeln)

Ef þú býrð í norsku eða finnsku sveitarfélagi sem liggur að landamærum Svíþjóðar og ferð yfir landamærin til vinnu, ert þú skilgreindur sem „gränsgångare" og fellur undir landamæraregluna. Hún kveður á um að þú eigir ekki að greiða skatt í Svíþjóð heldur i heimalandinu. Skilyrði fyrir þessari reglu er að þú dveljir í heimalandi þínu, Noregi eða Finnlandi, minnst tvo daga í viku með einnar nætur dvöl.

Veldu hitt landi hr:   Danmörk | Ísland | Noregur | Finnland |