Skattframtalið

Hverjir þurfa að skila skattframtali?

Þeir sem bera ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi þurfa undantekningarlaust að skila inn skattframtali. Þeir sem bera takmarkaða skattskyldu þurfa einnig að skila inn framtali ef þeir hafa tekjur eins og laun, lífeyri, leigutekjur o.fl. á Íslandi, jafnvel þó þeir séu búsettir og með ótakmarkaða skattskyldu í öðru landi. Sjá nánari upplýsingar undir Takmörkuð skattskylda og Lífeyrisþegar.

Hvar er hægt að fá skattframtal?

Framtöl eru forskráð og liggja inni á þjónustuvef ríkisskattstjóra skattur.is. Eingöngu er hægt að skila framtölum á íslensku rafrænt. Til að skila framtali þarf að hafa veflykil RSK sem sækja má um inn á skattur.is eða ef viðkomandi er búsettur á Íslandi, rafræn skilríki sem sækja má um hjá Auðkenni eða bönkum og sparisjóðum.
Erlendir ríkisborgarar, sem dvelja á Íslandi í stuttan tíma, geta fengið pappírsframtöl á ensku RSK 1.10 og RSK 1.13 (einfölduð útgáfa) inn á vef ríkisskattstjóra rsk.is, en þeim er ekki hægt að skila rafrænt.

Hvenær skal skila skattframtali?

Skila skal inn skattframtali til ríkisskattstjóra áður en auglýstur framtalsfrestur rennur út, en hann er yfirleitt í marsmánuði. Þeir sem komið hafa til tímabundinnar dvalar þurfa að skila skattframtali til ríkisskattstjóra a.m.k. viku fyrir brottför. Á skattframtalinu er nauðsynlegt að láta koma fram dvalartíma á Íslandi og heimilisfang erlendis. Einnig er gott að setja inn nafn á umboðsmanni á Íslandi, sé hann fyrir hendi.  Álagning fer fram í júní árið eftir tekjuárið. Sé skattframtali ekki skilað eru tekjur áætlaðar og álögð gjöld reiknuð á grundvelli þeirrar áætlunar.

Hvar á að skila skattframtali?

Skattframtali er skilað rafrænt á þjónustusíðunni skattur.is. Þeir erlendu ríkisborgarar sem skila pappírsframtali á ensku, skulu skila því á næstu starfsstöð ríkisskattstjóra.

Skipti á upplýsingum milli skattyfirvalda

Til að tryggja rétta skattlagningu hafa öll Norðurlöndin þá reglu að vinnuveitendur, bankar o.fl. eigi að senda skattyfirvöldum upplýsingar um greidd laun, lífeyri, arð, vexti o.fl. Hér eiga m.a. að koma fram nöfn viðtakenda og heimilisföng, hvernig tekjur er um að ræða ásamt fjárhæð.  Þessi upplýsingaskylda gildir einnig um greiðslur til einstaklinga sem búsettir eru í öðrum löndum.

Til að tryggja nákvæma skattlagningu hafa öll Norðurlöndin komið sér saman um að skiptast á upplýsingum. Upplýsingaskiptin fara fram árlega milli sérvaldra eininga hjá skattyfirvöldum og gegnum öruggar boðleiðir. Mikið magn upplýsinga streymir milli Norðurlandanna. Þessar upplýsingar eru notaðar af skattyfirvöldum í búsetulandinu til að hafa eftirlit með því að einstaklingar með starfsemi yfir landamæri hafi uppfyllt skyldur sínar um að upplýsa um tekjur og eignir erlendis.