Býrð þú á Íslandi og ætlar að vinna sem verktaki í öðru norrænu landi ?

Þessar upplýsingar eru ætlaðar þér sem býrð á Íslandi og ætlar að vinna sem verktaki í öðru norrænu landi, og fjalla eingöngu um skattlagningu tekna af þeirri starfsemi.

Skattur á Íslandi

Þú átt að telja fram og greiða skatt af allri starfsemi þinni á Íslandi. Skattur er lagður á tekjurnar samkvæmt íslenskum reglum, þar sem þú berð ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi. Það þýðir að þú þarft líka að telja fram þær tekjur af starfseminni sem aflað var og taldar voru fram í hinu norræna landinu.

Ef þú átt að greiða skatt í hinu norræna landinu, þarft þú að gefa upplýsingar um þann skatt í skattframtalinu. Við álagningu á Íslandi er tekið tillit til þess skatts sem þú greiddir í hinu norræna landinu.

Auk upplýsinga sem þér ber að færa á skattframtalið þarft þú að skila rekstrarskýrslu (eyðublað RSK 4.11).

Átt þú einnig að greiða skatt í hinu landinu ?

Þú ert einungis skattlagður af verktakagreiðslum í hinu norræna landinu, ef þú ert með fasta starfsstöð þar. Þó má einungis skattleggja þann hluta rekstrartekna sem verða til í þessari föstu starfsstöð í hinu landinu. Skattlagning í hinu landinu fer eftir lögum þess lands.

Ef þú ert t.d. læknir, endurskoðandi, verkfræðingur eða ráðgjafi (s.k. sjálfstætt starfandi), getur þú einnig orðið skattskyldur í vinnulandinu þegar þú hefur dvalið þar í meira en 183 daga á 12 mánaða tímabili. Þetta á við þó að þú sért ekki með fasta starfsstöð þar.

Skilgreiningu á hugtakinu föst starsstöð er að finna undir fyrirsögninni „Almennar upplýsingar/Föst starfsstöð".

Nánari upplýsingar um skattlagningu í hinu norræna landinu finnur þú með því að smella á viðkomandi land neðst á síðunni.

Almannatryggingar

Í gildi eru sérstakar reglur sem kveða á um hvar þú skulir vera tryggður. Þú þarft að hafa samband við Tryggingastofnun ríkisins á Íslandi eða sambærilega stofnun í því landi sem þú ætlar að vinna í til  að fá nánari upplýsingar um reglurnar.

Virðisaukaskattur

Ef þú ert með verktakastarfsemi í öðru norrænu landi, þarft þú hugsanlega að skrá þig á virðisaukaskattsskrá þar samkvæmt virðisaukaskattslögum þess lands. Nánar upplýsingar um virðisaukaskatt í hinu landinu finnur þú með því að smella á viðkomandi land neðst á síðunni.

Veldu hitt landi hr:   Danmörk | Noregur | Finnland | Svíþjóð