Býrð þú í öðru norrænu landi og átt fasteign á Íslandi?

Hér á eftir er fjallað um skattlagningu hjá þeim sem ekki eru heimilisfastir á Íslandi, en eiga hér fasteign.

Skattlagning á Íslandi

Þeir sem búsettir eru í öðru norrænu landi en eiga fasteign á Íslandi og hafa af henni leigutekjur eða söluhagnað, bera á Íslandi takmarkaða skattskyldu vegna þessara eigna. Á þessar tekjur er lagður 22% fjármagnstekjuskattur. Skatturinn reiknast af 50% leigutekna án nokkurs frádráttar en af öllum söluhagnaðinum. Sé fasteign í útleigu og heildarleigutekjur nema lægri fjárhæð en skattmat fjármálaráðherra segir til um skal telja tekjurnar til tekna á því mati sem er á bilinu 3,5-5% af fasteignamati og ræðst hlutfallið af því hvar eignin er staðsett.

Greidda húsaleigu í dvalarríkinu má draga frá leigutekjum á Íslandi ef leigutekjurnar eru af íbúðarhúsnæði til eigin nota og um tímabundna útleigu er að ræða.

Söluhagnaður

Samkvæmt ákvæðum 13. greinar tvísköttunarsamnings milli Norðurlandanna má skattleggja söluhagnað, sem myndast vegna sölu fasteigna, í því ríki þar sem fasteignin er. Þegar fasteign, sem skattskyld hefur verið á Íslandi samkvæmt reglum sem gilda um takmarkaða skattskyldu, er seld, gilda almennar reglur um útreikning og skattlagningu söluhagnaðarins. Ef um skattskyldan söluhagnað er að ræða er heimilt að fresta skattlagningu um tvenn áramót frá söludegi og færa niður kaupverð fasteignar sem keypt er í staðinn, en þessi ákvæði eiga einungis við ef seljandi eignarinnar telur líklegt að hann kaupi í staðinn aðra fasteign á Íslandi. Sé ekki keypt eða bygging hafin á fasteign á Íslandi innan þessara tímamarka er söluhagnaðurinn skattlagður á öðru ári frá því að hann myndaðist.

Þessar tekjur eru ekki staðgreiðsluskyldar en eru skattlagðar samkvæmt skattframtali. Skila skal skattframtali vegna þessara eigna og tekna af þeim til ríkisskattstjóra.

Sé um sameign að ræða telur hver einstaklingur fram sinn eignarhluta og hlutdeild í tekjum á sér framtali.

Eignarskattur

Ekki er álagður almennur eignarskattur á á Íslandi, en auðlegðarskattur er lagður á þegar eignir einstaklings fara umfram 75 miljónir og eignir hjóna umfram 100 miljónir vegna 2012.

Fasteignaskattur

Sveitarfélögin leggja á fasteignaskatt á fasteignir og er skatturinn hlutfall af fasteignamati húss og lóðar, á bilinu 0,180%-0,625% ( 2008). Með fasteignaskatti eru einnig innheimt önnur gjöld af fasteignum, svo sem lóðarleiga, sorphirðugjald, vatnsskattur o.þ.h. 

Veldu hitt landi hr:   Danmörk | Noregur | Finnland | Svíþjóð