Valmynd

Almennar upplýsingar um tekjuskatt á Grænland

Grænland hefur sína eigin skattalöggjöf. Frá og með 1. janúar 2007 er innheimta og umsýsla tekjuskatts byggð á Landsþingslögum nr. 11 um umsýslu skatta og landsþingslögum nr. 12 um tekjuskatt frá 2. nóvember 2006, með síðari breytingum, tilheyrandi reglugerðum og tvísköttunarsamningum. Lögin ná bæði til einstaklinga og félaga.

Takmörkuð skattskylda

Einstaklingar sem dvelja á Grænlandi skemur en í 6 mánuði bera takmarkaða skattskyldu af launatekjum og hlunnindum (fríu fæði, fríu húsnæði og fríum bíl m.m.) Þeir sem bera takmarkaða skattskyldu fá fastan frádrátt (standardfradrag) af launatekjum. Við álagningu skatta er einnig heimilaður persónuafsláttur, fyrir þá daga sem viðkomandi hefur verið skattskyldur á Grænlandi

Ótakmörkuð skattskylda

Einstaklingar sem hafa fasta búsetu á Grænlandi, eða dvelja þar í a.m.k. sex mánuði, eru skattskyldir af öllum tekjum á dvalartímanum (skattskyldutímanum), hvort sem þær koma frá Grænlandi, Danmörku eða öðrum löndum (alþjóðatekjureglan). Tekjur og útgjöld vegna fasteigna sem staðsettar eru utan Grænlands eru undanþegnar og reiknast ekki með í grænlenskri skattlagningu.

Fjárhæðir persónuafsláttar, fasts frádráttar og skattaprósenturnar má finna í leiðbeiningum fyrir þá sem flytja til Grænlands " Vejledning for tilflyttere" sem eru inni á www.aka.gl. Í leiðbeiningunum má líka finna nákvæmari upplýsingar varðandi skattskyldar tekjur og frádrátt frá þeim.

Launatekjur

Launatekjur vegna vinnu sem innt er af hendi á Grænlandi eru skattlagðar í Grænlandi, óháð því hvort launagreiðandinn er grænlenskur, danskur eða frá öðru erlendu ríki. Skattlagningarrétturinn getur verið takmarkaður í samræmi við tvísköttunarsamninga við Danmörku, Færeyjar, Ísland og Noreg.

Eftirlaun

Eftirlaun einstaklinga sem bera ótakmarkaða skattskyldu á Grænlandi, eru skattskyld á Grænlandi. Eftirlaun frá Danmörku skattleggjast eingöngu á Grænlandi. Eftirlaun frá Færeyjum, Íslandi og Noregi geta einnig verið skattskyld í greiðslulandinu, en hafi skattur verið greiddur í greiðslulandinu mun Grænland beita frádráttarreglunni (credit) við útreikning grænlensks skatts af eftirlaununum. Grænlenskur skattur af eftirlaunum frá löndum sem ekki hefur verið gerður tvísköttunarsamningur við, verður einungis lækkaður ef skattur hefur verið greiddur af eftirlaununum í greiðslulandinu.

Námsmenn

Námsmenn frá Danmörku, Færeyjum, Íslandi eða Noregi, sem dvelja á Grænlandi í því skyni að stunda þar nám, eru ekki skattskyldir á Grænlandi af tekjum sem þeir fá sér til framfærslu frá heimalandinu.

Fasteignir

Tekjur og útgjöld af fasteignum sem staðsettar eru utan Grænlands eru ekki skattskyldar á Grænlandi á sama hátt og ekki er heimilaður frádráttur vegna vaxtakostnaðar af fasteignum sem staðsettar eru utan Grænlands.

Einstaklingar sem búsettir eru utan Grænlands en eiga fasteignir í Grænlandi, bera takmarkaða skattskyldu á Grænlandi og eru skattlagðir þar af tekjum sem koma af útleigu fasteigna.

Tvísköttunarsamningar

Grænland hefur gert tvísköttunarsamninga við Danmörku, Færeyjar, Ísland og Noreg.

Ef skattleggja má tekjur frá einu þessarra landa í báðum löndunum og móttakandi teknanna er búsettur á Grænlandi mun Grændland í samræmi við ákvæði tvísköttunarsamningsins heimila frádrátt eða lækkun frá grænlenskum skatti.

Einstaklingar með tekjur frá löndum sem Grænland hefur ekki gert tvísköttunarsamning við, geta fengið lækkun á grænlenskum skatti af þessum tekjum í samræmi við grænlensk skattalög.

Nánari upplýsingar og upplýsingar um núverandi löggjöf má finna á heimasíðu skattyfirvalda www.aka.gl

Spurningum um skattlagningu í Grænlandi má beina til Sjálfstjórnar Grænlands gegnum þennan skattavef eða með fyrirspurn til:

Grønlands Selvstyre, Skattestyrelsen, Postboks 1605, 3900 Nuuk,

Telefon: +299 34 65 01, E-mail: tax@nanoq.gl.Valmynd